Fyrir hverja
Ökumenn stórra bifreiða í ökuréttindaflokki D1 og D til farþegaflutninga í atvinnuskyni og í flokki C1 og C þurfa að hafa lokið 35 kennslustunda endurmenntun á síðustu fimm árum fyrir endurnýjun. Þetta á líka við bílstjóra sem eru með svokölluð 5 tonna farmréttindi og stunda vöruflutninga í atvinnuskyni.
Allir bílstjórar með réttindi D1, D, C1 og C sem endurnýja ökuréttindi sín þurfa að hafa lokið endurmenntunarnámskeiðum.
Réttindin eru gefin til kynna með tákntölunni 95 og er lok gildistíma sett aftan við tákntöluna. Talan gildir í öllum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins og veitir bílstjórum aðgang að atvinnumarkaði bílstjóra í viðkomandi ríkjum. Ríkjunum er einnig heimilt að nota sérstök atvinnuskírteini með mynd af rétthafa í stað eða ásamt tákntölunni. Skylda til endurmenntunar nær til allra sem halda réttindum til að aka bifreiðum í atvinnuskyni í þessum flokkum.
Allir sem endurnýja ökuskírteinið sitt í flokkunum D1, D, C1 og C þurfa að hafa lokið endurmenntun. Bílstjórar geta alltaf endurnýjað atvinnuréttindi sín með því að sækja endurmenntunarnám.
Bílstjórar þurfa EKKI að sækja endurmenntun ef þeir aka aðeins í eigin þágu og eru ekki í flutningum gegn gjaldi. Hafi umsækjandi um endurnýjun ökuskírteinis ekki sótt endurmenntun, er hægt að endurnýja án réttinda til aksturs í atvinnuskyni.
Námið
Endurmenntun atvinnubílstjóra skal fara fram hjá viðurkenndum námskeiðs haldara með leyfi Samgöngustofu. Fjöldi kennslustunda skal vera 35 stundir í 7 stunda lotum síðustu fimm árin fyrir endurnýjun réttinda. Námið samanstendur því af fimm stuttum námskeiðum sem má dreifa á þetta tímabil en verður að vera lokið fyrir endurnýjun ökuskírteinis. Hverri lotu má skipta niður á tvo samliggjandi daga innan 24 klukkustunda.
Eftir klukkan 15:00 er ekki hægt að fá tengil sendan fyrir námskeið samdægurs.
Eftir klukkan 14:30 á föstudögum er ekki hægt að fá sendan tengil fyrir laugardagsnámskeið.
Kjarni:
Allir verða að taka 21 stunda kjarna:
- Vistakstur – öryggi í akstri:
Markmiðið er að bílstjórinn þekki hugmyndafræði vistaksturs og með hvaða hætti hann getur lágmarkað eldsneytiseyðslu og umhverfismengun og hámarkað öryggi sitt og annarra í umferðinni með réttu aksturslagi. - Lög og reglur:
Markmiðið er að bílstjórinn þekki helstu atriði í lögum og reglum um vöru- og farþegaflutninga og um stór ökutæki sem atvinnutæki og geri sér grein fyrir ábyrgð bílstjóra á ástandi og notkun ökutækis á hverjum tíma. - Umferðaröryggi – bíltækni:
Markmiðið er að bílstjórinn þekki vegakerfið og helstu hættur sem eru til staðar eða geta skapast í tengslum við ytri aðstæður, s.s. við mismunandi veðurskilyrði. Einnig að hann þekki helstu tegundir og orsakir umferðar- og vinnuslysa og þekki aðferðir við slysavarnir.
Valkjarni:
7 eða 14 kennslustundir. Farþega- og vöruflutningar. Bílstjóri með réttindi til farþega- og vöruflutninga í atvinnuskyni getur valið um að taka annan hluta eða báða. Bílstjóri eingöngu með réttindi til farþegaflutninga í atvinnuskyni verður að taka farþegaflutningahlutann og bílstjóri eingöngu með réttindi til vöruflutninga verður að taka vöruflutningahlutann.
- Farþegaflutningar:
Markmiðið er að bílstjórinn þekki atriði er lúta sérstaklega að akstri hópbifreiða, farþegaflutningum, ábyrgð bílstjóra á öryggi farþega og almennt að þjónustuhlutverki bílstjóra, náttúruvernd, ferðamennsku, mjúkum akstri o.fl. Hann þekki ákvæði í lögum og reglum um flutning farþega og sérbúnað hópbifreiða. - Vöruflutningar:
Markmiðið er að bílstjórinn gangi af öryggi frá og festi mismunandi tegundir farms. Bílstjóri þekki reglur um, notkun farm- og fylgiskjala sem krafist er í flutningum bæði innanlands sem og á milli landa.
Val (ef þarf):
7 kennslustundir. Í vali getur bílstjóri sótt sérhæft námskeið sem fellur undir námskrá Samgöngustofu fyrir flokka aukinna ökuréttinda frá janúar 2005. Sérhæft námskeið í vali skal viðurkennt af Samgöngustofu.
- Skyndihjálp
Upplýsingar fengnar hjá Samgöngustofu og Stjórnarráði Íslands.